Erlent

Aldrei fleiri konur verðlaunaðar

„Ég er enn að jafna mig,“ sagði Elinor Ostrom eftir að hafa fengið þær fregnir í gær að hún hlyti Nóbelsverðlaunin í hagfræði.Fréttablaðið/AP
„Ég er enn að jafna mig,“ sagði Elinor Ostrom eftir að hafa fengið þær fregnir í gær að hún hlyti Nóbelsverðlaunin í hagfræði.Fréttablaðið/AP
Bandaríski stjórnmálafræðingurinn Elinor Ostrom varð í gær fyrst kvenna til að hljóta Nóbelsverðlaunin í hagfræði. Hún hlaut verðlaunin ásamt landa sínum, hagfræðingnum Oliver Williamson.

Ostrom varð fimmta konan til að hljóta Nóbelsverðlaun í ár, en aldrei áður hefur svo mörgum konum hlotnast þessi heiður.

Ostrom hlaut verðlaunin fyrir að koma rannsóknum á efnahagsstjórnun í kastljós vísindasamfélagsins. Í umsögn um störf hennar segir að þau sýni hvernig fólk sem nýtir auðlindir á borð við skóga, olíu og fiskistofna geti sjálft stýrt nýtingunni, í stað ríkisvaldsins eða fyrirtækja. Ostrom sagði sér heiður sýndan með því að verða fyrsta konan til að hljóta verðlaunin í hagfræði, og lofaði því jafnframt að hún yrði ekki sú síðasta.

Þegar hefur verið tilkynnt að Ada Yonath hljóti Nóbelsverðlaunin í efnafræði ásamt tveimur öðrum, og Herta Müller hljóti bókmenntaverðlaunin. Þá hljóta Elizabeth Blackburn og Carol Greider Nóbels­verðlaunin í læknisfræði ásamt þriðja manni.

Auk friðarverðlauna Nóbels eru verðlaun veitt fyrir eðlisfræði, efnafræði, læknisfræði, bókmenntir og hagfræði. Algengt er að fleiri en ein manneskja deili verðlaununum í hverjum flokki. - bj


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×