Innlent

Kosningabíll Sturlu skemmdur

Sturla Jónsson.
Sturla Jónsson.

Sturla Jónsson efsti maður á lista Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður hefur keyrt um á vörubíl með auglýsingu frá sjálfum sér í aðdraganda kosninganna. Honum brá því heldur betur í brún þegar hann ætlaði af stað í morgun og búið var að losa gám sem var á vagni aftan á bílnum. Litlu munaði að gámurinn færi af vagninum en það var fyrir snarræði Sturlu að ekki fór verr. Hann segir að einnig hafi verið búið að særa slöngu sem liggur úr bílnum í vagninn.

„Mér finnst þetta nú bara fyndið hvernig menn geta hagað sér. Þetta hefði hinsvegar getað endað illa ef ég hefði misst hann niður á jörðu," segir Sturla sem er með bílinn, gáminn og vagninn í láni hjá félögum sínum.

Sturla hafði lagt bílnum við Elliðaárstífluna og ætlaði að fara á rúntinn í morgun þegar hann varð var við skemmdirnar.

Þegar fréttastofa náði af honum tali var hann að basla við að koma þessu í lag og ætlaði síðan í bíltúr um bæinn. Hann má hinsvegar ekki vera með áróður á kjörstað.

„Lögin eru þannig að ég má ekki vera í sjónlínu við kjörstað en ég get verið á ferðinni án þess að ég sjáist frá kjörstað," segir Sturla sem undrast hvernig fylgi flokksins hefur verið að mælast að undanförnu.

„Ef ég tala bara beint frá hjartanu þá hafa skoðanakannir ekki verið að sýna það sem ég finn hjá fólki sem ég tala við, það er langur vegur þar á milli," segir Sturla og tekur dæmi um hversu vel gekk að safna undirskriftum.

„Ég var ekki nema sex tíma að ná í einhverjar 440 undirskriftir í mínu kjördæmi."

„Eina almennilega skoðanakönnunin fer hinsvegar fram í dag og í kvöld, það er það sem skiptir máli."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×