Innlent

Ólíklegt að Ríkisendurskoðun geti skoðað mál Guðlaugs

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson sagðist vilja að Ríkisendurskoðun tæki störf sín út. Mynd/ Stefán.
Guðlaugur Þór Þórðarson sagðist vilja að Ríkisendurskoðun tæki störf sín út. Mynd/ Stefán.
Vafi leikur á því hvort Ríkisendurskoðun sé heimilt að taka út störf Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns þann tíma sem hann starfaði sem stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Í yfirlýsingu sem Guðlaugur Þór sendi frá sér í gær sagðist hann ætla að fara þess á leit við embættið að það tæki störf sín út.

„Það er meginhlutverk Ríkisendurskoðunar að endurskoða ríkisreikning og reikninga þeirra sem hafa með höndum rekstur á vegum ríkisins. Það er ekki gert ráð fyrir því í lögum um Ríkisendurskoðun að hún hafi sérstakt hlutverk varðandi skoðun á reikningsskilum eða fjárhag sveitarfélaga eða stofnana sem eingöngu starfa á þeirra vegum," segir Trausti Fannar Valsson, lektor í lögfræði við Háskóla Íslands. Trausti segir að það sé þó gert ráð fyrir að Ríkisendurskoðun geti komið að skoðun á reikningsskilum sveitarfélaga að því leyti sem þau varða starfsemi ríkisins og sveitarfélaganna. „Svona við fyrstu sýn virðist ekki vera sem það eigi við hér," segir Trausti Fannar.

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi sagði í samtali við fréttastofu að honum hefði ekki borist erindi frá Guðlaugi. Hann vildi því ekki tjá sig um þetta mál að svo komnu.






Tengdar fréttir

Vill að Ríkisendurskoðun taki út störf sín

Guðlaugur Þór Þórðarson ætlar að fara þess á leit við Ríkisendurskoðun að hún taki út störf sín sem stjórnarformaður Orkuveitur Reykjavíkur. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Guðlaugur Þór sendi Fréttastofu Sjónvarpsins í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×