Innlent

Lýðræðishreyfing Ástþórs uppfyllir ekki skilyrði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Framboðslistar Lýðræðishreyfingar Ástþórs Magnússonar uppfylla ekki skilyrði kosningalaga í neinu kjördæmi og hafa yfirkjörstjórnir veitt hreyfingunni frest til að bæta úr ágöllum, ýmist til kvölds eða til morguns. Bæði vantar meðmælendur og galli er á samþykki frambjóðenda.

Yfirkjörstjórnir í kjördæmunum sex hafa fundað í dag með umboðsmönnum listanna sjö sem bárust áður en framboðsfrestur rann út á hádegi í gær. Yfirkjörstjórn Suðvesturkjördæmis úrskurðar á fundi í kvöld um listana en í hinum fimm kjördæmunum er búið að úrskurða sex framboðslista gilda, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Frjálslyndra, Samfylkingar, Vinstri grænna og Borgarahreyfingarinnar.

Listar Lýðræðishreyfingarinnar hafa hvergi verið taldir uppfylla skilyrði kosningalaga og hafa yfirkjörstjórnir veitt hreyfingunni, sem er undir forystu Ástþórs Magnússonar, frest til að bæta úr ágöllum. Bæði vantar fjölda meðmælenda en einnig er undirritað samþykki frambjóðenda talið gallað í einhverjum kjördæmum.

Frestirnir sem Ástþór og félagar fengu eru mislangir. Þannig rann fresturinn í Suðurkjördæmi út klukkan átján í kvöld en ekki er enn ljóst hvort tókst að lagfæra framboðið fyrir þann tíma. Í hinum kjördæmunum renna frestir Lýðræðishreyfingarinnar út ýmist í fyrramálið eða upp úr hádegi á morgun. Það verður því væntanlega ljóst síðdegis á morgun hvort nægilega margir meðmælendur hafi fengist með Ástþóri og hvort undirskriftir frambjóðenda uppfylli skilyrði kosningalaga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×