Innlent

Bjarni á kjörstað: Atvinnan er stærsta velferðarmálið

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins mætti ásamt fjölskyldu sinni á kjörstað í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ fyrir stundu. Með í för var framtíðin eins og hann orðaði það og hann sagði framtíðina bjarta. Hann sagði nokkuð öruggt hvað hann væri að fara að gera í kjörklefanum og vonaði að flokkurinn fengi fleiri atkvæði en kannanir hafa sýnt upp á síðkastið.

„Það er óhætt að segja að það hafi verið langir og strangir dagar undanfarið. Ég vissi reyndar að svo yrði fyrirfram en þannig er líf stjórnmálamannanna. Það koma kaflar þar sem unnið er sleitulaust en svo er þetta rólegt inn á milli, ég kvarta hinsvegar ekki yfir neinu," sagði Bjarni í samtali við Bylgjuna fyrir stundu.

Aðspurður hversvegna fólk ætti að kjósa flokk Bjarna sagði hann að fólk ætti að gefa nýrri forystu Sjálfstæðisflokksins tækifæri og hugsa um hvaða flokkur væri líklegastur til þess að byggja upp atvinnu í landinu.

„Atvinnan er stærsta velferðarmál fjölskyldunnar."

Bjarni sagði að í kosningabaráttunni hefðu menn eytt alltof miklu púðri í að ræða gamla hluti. „Ég skil hinsvegar mjög vel umræðuna um styrki til stjórnmálaflokkanna og sú umræða verður að vera gagnsæ. Við höfum hinsvegar of lítið rætt þau gríðarlega stóru verkefni sem okkar bíða," sagði Bjarni rétt áður en hann steig inn í kjörklefa.













Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×