Innlent

Óttast pólitískan leik með stjórnarskrána

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragnhildur Helgadóttir segir að almenn sátt verði að vera um stjórnarskrárbreytingar. Mynd/ GVA.
Ragnhildur Helgadóttir segir að almenn sátt verði að vera um stjórnarskrárbreytingar. Mynd/ GVA.
Ragnhildur Helgadóttir, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, segist telja að breið samstaða verði að vera um breytingar á stjórnarskránni eigi þær að ganga í gegn. Þetta kemur fram í umsögn sem Ragnhildur sendi sérnefnd um stjórnarskrármál vegna stjórnskipunarfrumvarpsins sem liggur fyrir nefndinni.

„Það er mín skoðun, að með því að naumur meirihluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk, sé stjórnarskráin færð inn í hringiðju stjórnmálanna: Þess má þá vænta að næsti meirihluti geri þær breytingar sem honum hugnast án þess að takmarka sig við það sem næst almenn sátt um á þingi og þannig koll af kolli. Þannig getur stjórnarskráin orðið óstöðugri og pólitískari en verið hefur, sem er óæskileg þróun," segir Ragnhildur í umsögninni.

Ragnhildur segir þó að sé það vilji Alþingis að samþykkja breytingar á stjórnarskránni án þess að samstaða hafi náðst um þær leggi hún til að breytingarnar verið takmarkaðar við ákvæðin um breytingar á stjórnarskránni og stjórnlagaþing. Ákvæði frumvarpsins sem lúta að eignaskilgreiningum á náttúruauðlindum annars vegar og þjóðaratkvæðagreiðslum hins vegar, verði ekki tekin í stjórnskipunarlög núna nema um þau náist sátt allra flokka. Að öðrum kosti sé opnað fyrir pólitískan leik með stjórnarskrána, sem ekki hafi tíðkast áður á Íslandi, og ástæða sé til að vara við.

Sem kunnugt er hafa sjálfstæðismenn lagst gegn stjórnskipunarfrumvarpinu. Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir því að fulltrúar stjórnarflokkanna í sérnefndinni hafi ætlað sér að taka málið úr nefnd í gærkvöld en sjálfstæðismenn hótað að tefja frumvarp um gjaldeyrishöft ef af því yrði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×