Viðskipti innlent

Öryggisafritun blómstrar í kreppu

Alexander Eiríksson
Alexander Eiríksson

Í Bretlandi hafa um fjörutíu fyrirtæki bæst í hóp viðskiptavina öryggisafritunarfyrirtækisins SecurStore frá vormánuðum síðasta árs. Alexander Eiríksson, sölu og markaðsstjóri og einn stofnenda SecurStore á Akranesi, segir þrengingar á fjármálamörkuðum og óvissutíma frekar vinna með fyrirtækinu en gegn því.

„Þetta er visst tækifæri fyrir okkur því þessi þjónusta, að vernda gögn yfir netið, er áskriftarþjónusta," segir Alexander. Þannig finnur SecurStore fyrir því erlendis að eftir því sem fjármögnunarmarkaðir hafa verið að lokast hafi áhugi aukist á lausnum á borð við þær frá SecurStore. „Okkar lausn kallar ekki á fjárfestingu í vél- og hugbúnaði heldur kemur þetta inn sem rekstur því fyrirtækin eru bara áskrifendur að þjónustunni hjá okkur."

Þá segir Alexander að fyrirtækið hafi ekki fundið fyrir því að íslenskur uppruni þess hafi hamlað því í Bretlandi. „Okkur líkar alveg jafnvel þar fyrir og eftir stríð," gantast hann, en lögð hefur verið aukin áhersla á söluhlið starfseminnar. Því hafi fyrirtækið bætt við sig tveimur nýjum sölumönnum í desember síðastliðnum. „Við erum bara dæmdir af því sem við gerum."

Alexander skýtur á að SecurStore sé nú með um 400 fyrirtæki í afritun í Evrópu, þar af um 200 í Bretlandi. „Markaðurinn er auðvitað risastór og vitanlega eru tækifæri úti um allt," segir hann og kveður frekari útrás í skoðun. Helst sé horft til Noregs og Beneluxlandanna til að byrja með.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×