Innlent

Mótmæla skattahækkunum á Facebook

Jón Hákon Halldórsson skrifar
María Margrét Jóhannsdóttir segir að vel sé hægt að spara án þess að skera niður þjónustu í velferðarkerfinu.
María Margrét Jóhannsdóttir segir að vel sé hægt að spara án þess að skera niður þjónustu í velferðarkerfinu.
Rösklega fjögur þúsund manns hafa mótmælt mögulegum skattahækkunum á Facebook samskiptavefnum með því að skrá nafn sitt í hóp undir yfirskriftinni „Ég mótmæli skattahækkunum".

„Yfirvöld þurfa að finna skynsamari leiðir til þess að mæta fjárhagsvandanum en ekki bara senda almenningi reikninginn," segir María Margrét Jóhannsdóttir blaðakona hjá Birtingi og stofnandi hópsins. „Skattahækkanir hafa ekki bara slæm áhrif á heimilin heldur einnig atvinnulífið og það er eitthvað sem við þurfum síst á að halda," segir María.

María bendir á að margir eigi fullt í fangi með að greiða af lánum, sem hafi hækkað upp úr öllu valdi og ljóst sé að með hærri sköttum og lægri launum sé bara verið að auka á vanda heimilanna og koma enn fleirum í greiðsluerfiðleika.

„Það er algengur hræðsluáróður að segja að heilbrigðis- og menntakerfið fari á hliðina verði skattar ekki hækkaðir, en með því er auðvitað bara verið að slá ryki í augu fólks til þess að sannfæra það um að þörf sé á skattahækkunum. Í skjóli þessara ágætu málefna fá alls konar gæluverkefni ráðamanna að þrífast og á undanförnum árum hefur þeim fjölgað verulega. Það er vel hægt að spara án þess að skerða þjónustu í velferðakerfinu," segir María.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×