Skoðun

Flokkur á harðahlaupum

Árni Páll Árnason skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn tók enn einn snúning á sunnudag og boðaði sjöttu stefnuna í gjaldmiðilsmálum á einu ári. Sú vortíska í Evrópustefnu 2009 sem Sjálfstæðisflokkurinn kynnti á landsfundi var endurunnin aflögð stefna VG frá í fyrra um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú stefna á augljóslega engan hljómgrunn meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins og flokkurinn þorir ekki með hana, þriggja vikna gamla, í kosningar.

Nýja stefnan er byggð á flugufregn úr Financial Times frá 5. apríl þar sem vísað var til þess að ótilgreindir sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) teldu skynsamlegt að rýmka skilyrði fyrir því að ESB-ríki fengju að taka upp evru.

Þessi flugufregn varð rökþrota sjálfstæðismönnum slíkur happafengur að þeir byggðu á henni nýja peningamálastefnu, sem er eins og aðrar Evrópustefnur flokksins síðasta árið fullkomlega óskiljanleg. Nú er það stefna flokksins að biðja AGS að tala við ESB fyrir Íslands hönd og biðja ESB um að leyfa Íslandi að taka upp evru.

Þrennt virðist a.m.k. hafa farið framhjá peningamálahugsuðum Sjálfstæðisflokksins:

1. Ísland er sjálfstætt og fullvalda ríki. Þess vegna á Ísland auðvitað að sækja sín mál sjálft gagnvart ESB. Við þurfum ekkert að hlaupa undir pilsfald AGS í þessu efni.

2. ESB hefur þegar hafnað hugmyndum um upptöku evru án aðildar að ESB. Hugmyndin í blaðagreininni byggir á að aðildarríkjum að ESB verði auðvelduð upptakan. Mislásu stefnusmiðirnir blaðagreinina?

3. Í nýju stefnunni felst algert vantraust á íslensku krónuna, en án þess að nokkur framtíðarstefna sé boðuð. Hvað á að gera þegar ESB er búið að segja nei við málaleitan AGS? Á þá að halda áfram með íslenska krónu sem sjálfstæðismenn hafa sagst vilja losna við?

Það er dapurlegt að sjá þá djúpstæðu vanmetakennd sem einkennir stefnumörkun sjálfstæðismanna í Evrópumálum. Menn treysta ekki eigin getu til samninga. Menn treysta ekki á ráðgjöf þeirra sem gerst til þekkja en hlaupa upp til handa og fóta og skipta um stefnu á grundvelli mislestrar á einni blaðagrein í útlendu blaði. Er þetta flokkur sem atvinnulífið eða kjósendur geta treyst?

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Skuggasund

Margrét Kristín Blöndal skrifar

Skoðun

Verður þér að góðu?

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, ,Hólmfríður Sigþórsdóttir skrifar

Sjá meira


×