Erlent

Fá Nóbelsverðlaun fyrir að uppgötva skæðar veirur

Luc Montagnier, annar Frakkanna sem hlýtur Nóbelsverðlaunin í læknisfræði.
Luc Montagnier, annar Frakkanna sem hlýtur Nóbelsverðlaunin í læknisfræði. MYND/AP

Tveir franskir vísindamenn sem uppgötvuðu HIV-veiruna og Þjóðverji sem uppgötvaði veiru sem veldur leghálskrabbameini deila Nóbelsverðlaununum í læknisfræði í ár. Frá þessu greindi Nóbelsverðlaunaakademían í dag.

Frakkarnir tveir, Luc Montagnier og Francoise Barre-Sinoussi, hljóta helming verðlaunanna sem nema tíu milljónum sænskra króna, jafnvirði um 160 milljóna króna, fyrir uppgötvun sína. Akademían segir að hún sé ein af forsendum fyrir auknum skilningi á alnæmi og þróun lyfja gegn veirunni. Veiran hefur lagt milljónir manna að velli á síðustu áratugum.

Þjóðverjinn Harald zur Hausen hlýtur hinn helming verðlaunafjárins fyrir að uppgötva veiru sem veldur leghálskrabbameini, en hann starfar við Háskólann í Düsseldorf og var áður forstjóri Krabbameinsrannsóknarstofnunar Þýskalands. Hann er sagður hafa farið gegn ríkjandi kreddum þegar hann uppgötvaði veiruna.

Tilkynnt verður um nóbelsverðlaunahafa í eðlisfræði, efnafræði, hagfræði og bókmenntum næstu daga og sömuleiðis hver hlýtur friðarverðlaun Nóbels.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×