Fótbolti

Uefa bikarinn: Bayern burstaði Aberdeen

Lucio var á skotskónum hjá Bayern í kvöld
Lucio var á skotskónum hjá Bayern í kvöld AFP

Síðari leikirnir í 32 liða úrslitum Uefa bikarkeppninnar fara fram í kvöld og þegar er fimm af sextán leikjum lokið. Bayern Munchen tryggði sig áfram í keppninni með 5-1 stórsigri á skoska liðinu Aberdeen á heimavelli.

Þýsku liðin voru sannarlega í stuði í kvöld því Bayer Leverkusen vann sömuleiðis 5-1 stórsigur á Galtasaray og mætir því löndum sínum í Hamburg í 16-liða úrslitum.

Hamburg gerði 0-0 jafntefli við FC Zurich en vann fyrri leikinn 3-1. Kristinn Jakobsson dæmdi leikinn og honum til aðstoðar voru þeir Ólafur Guðfinnsson og Sigurður Þórleifsson, en Jóhannes Valgeirsson var fjórði dómari.

Franska liðið Marseille er líka komið áfram þrátt fyrir að hafa tapað 2-0 fyrir Spartak í Moskvu, en franska liðið vann fyrri leikinn 3-0 og slapp því fyrir horn.

Þá er skoska liðið Glasgow Rangers komið áfram í keppninni eftir 1-1 jafntefli við Panathinaikos og fer í 16 liða úrslit á marki skoruðu á útivelli. Nacho Novo tryggði skoska liðinu farseðilinn áfram með því að jafna leikinn þegar aðeins níu mínútur voru til leiksloka.

Margir áhugaverðir leikir eru á dagskrá í keppninni í kvöld og þar bera hæst leikir Atletico og Bolton, Tottenham og Slavia Prag og svo auðvitað leikur Everton og Brann sem sýndur verður beint á Sýn klukkan 20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×