Innlent

Þorstinn var hinn sami þrátt fyrir rafmagnsleysi

Kormákur Geirharðsson.
Kormákur Geirharðsson.
Bilun í háspennustreng í Hallveigarstíg setti strik í reikninginn hjá skemmtanaglöðum borgarbúum í gærkvöldi. Rafmagn fór af hluta Laugavegarins frá Snorrabraut og á Hverfisgötu að Lækjartorgi laust upp úr klukkan ellefu, um það leyti sem næturlífið í miðbænum er venjulega að glæðast. Posar veitingastaða og kráa duttu þar með út - en þorstinn var hinn sami og venjulega hjá bargestum.

Kormákur Geirharðsson, veitingamaður á Ölstofunni við Vegamótastíg, sagði gesti staðarins ekki hafa látið þetta á sig fá. Þvert á móti hafi fólki þótt rafmagnsleysið notalegt. Flestir greiddu fyrir sína drykki, þrátt fyrir posaleysið, þeir sem ekki áttu handbært fé, lögðu inn kreditkortin sín meðan rafmagnið lá niðri.

Að sögn Kormáks, var ástandið öllu varhugaverðara á veitingastaðnum Domo í Þingholtsstræti þar sem menn hafa verið að birgja sig upp af dýrum matvælum fyrir Food and fun, í kæliklefum sem rafmagnið fór af í gærkvöldi. Alls féllu sex spennustöðvar út í gær og sums staðar kom rafmagnið ekki á fyrr en klukkan tuttugu mínútur í eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×