Innlent

Ostakrækir hnuplar úr Búrinu

Eirný segist himinlifandi að hafa fengið ostinn aftur, enda mikils virði.Fréttablaðið / valli
Eirný segist himinlifandi að hafa fengið ostinn aftur, enda mikils virði.Fréttablaðið / valli
Írskur gáda-osthleifur var numinn á brott af heimili sínu í fyrrinótt og skömmu síðar varpað á jörðina. Osturinn, sem staðið hafði á afgreiðsluborði ostaverslunarinnar Búrsins við Nóatún, komst aftur óskaddaðar í réttar hendur.

Eirný Sigurðardóttir, eigandi Búrsins, vann fram eftir í fyrrinótt og raðaði í gjafakörfur bakatil í búðinni. Þegar nokkuð var liðið fram yfir miðnætti varð hún vör við umgang frammi. Þegar hún kannaði málið sá hún þar mann rogast með stærðar ost út um dyrnar.

„Ég hljóp á eftir honum alveg tjúlluð," segir Eirný. Þegar út var komið skrikaði þjófnum fótur svo hann missti ostinn.

Um var að ræða tólf kílóa gádaost frá írskum bóndabæ. Verðmæti hans er ríflega áttatíu þúsund krónur. „Osturinn slapp," segir Eirný. „Hann er ekkert skemmdur."

Eirný ætlar ekki með málið lengra. „Nei, ekki núna rétt fyrir jól." Hún segist hafa áhyggjur af ástandinu fyrst menn séu farnir að brjótast inn til að næla sér í ost í matinn.

Eirný hefur þegar uppnefnt þjófinn Ostakræki og telur að þar sé á ferð fjórtándi jólasveinninn. - sh



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×