Viðskipti innlent

Bankahólfið. LL styrkja rannsóknir

...
...

Landssamtök lífeyrissjóða hafa ákvðið að styrkja Ólaf Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, um eina milljón króna vegna doktorsritgerðar sem hann vinnur að um íslenska lífeyriskerfið. Stjórn samtakanna samþykkti þetta á aðalfundi sínum fyrir helgi.

Ólafur vinnur að doktorsverkefni við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Verkinu er skipt upp í þrjá kafla og vinnur hann að frágangi þess fyrsta.

Þá var samþykktur 400 þúsund króna styrkur til Rafns Sigurðs­sonar vegna mastersverkefnis hans um smíði líkans til að meta hversu mikil áhrif ávöxtun lífeyris­sjóðanna og breytileg aldurssam­setning sjóð­félaga hefur á réttindaöflun sjóðfélaga.

Von á þeim finnska?

Mikil og jákvæð viðbrögð við gjaldmiðlaskiptasamningum við seðlabanka Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar á dögunum eru til marks um að beðið hafi verið eftir útspilum sem þessum af hálfu stjórnvalda og Seðlabankans. Nú fullyrða aðilar á markaði að sambærilegur samningur við finnska seðlabankann liggi fyrir og verði kynntur fljótlega, en enn sé unnið að samkomulagi við Seðlabanka Evrópu og Englandsbanka. Þá munu erindrekar Seðlabankans hafa leitað hófanna vestan Atlantsála, meðal annars með aðkomu bandaríska seðlabankans og JP Morgan.

Vík milli vina

Vík er sögð orðin milli vina í þeim þekkta Samson-hópi og er hóflega orðuð tilkynning til Kauphallar í vikunni um brotthvarf Magnúsar Þorsteinssonar úr varastjórn Icelandic Group höfð til vitnis um það. Fyrir skemmstu fór Magnús, sem var framkvæmdastjóri þeirrar frægu Bravo-bjórverksmiðju í St. Pétursborg, með himinskautum ásamt Björgólfsfeðgum, og var aðaleigandi Avion og síðar stjórnarformaður bæði Icelandic og Eimskips.

En nú er hann horfinn úr báðum stjórnum án nokkurra skýringa. Bæði félögin hafa tapað gífurlegum fjárhæðum og Björgólfsfeðgar, sem eru bæði helstu hluthafar félaganna og stærstu lánardrottnar gegnum Landsbankann, hafa tekið þar öll völd á kostnað þeirra gamla viðskiptafélaga, sem dvelst nú löngum stundum í Rússlandi og er kannski í þeim skilningi kominn aftur á byrjunarreit...





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×