Viðskipti erlent

Stýrivextir vestan hafs í núllið og peningaprentunin á fullt

Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti í gærkvöld að vextir bankans miðuðust nú við bilið 0 - 0,25% í stað 1% áður. Þetta kom mörkuðum nokkuð í opna skjöldu þar sem flestir höfðu spáð 0,5 prósentustiga lækkun vaxta.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir að nú verði peningaprentvélarnar settar í fimmta gír hjá Bernanke og félögum, enda skilaboð bankans þau að vöxtum verði haldið nærri núlli og peningum veitt út í hagkerfið af kappi þar til það fer að taka við sér að nýju.

Einnig lét bankinn í veðri vaka að umsvif hans við kaup á skuldabréfum íbúðalánveitenda yrðu enn aukin og að hann léti til sín taka við kaup á langtíma ríkisskuldabréfum. Er þetta væntanlega bæði hugsað til þess að auka peningamagnið og eins til þess að freista þess að minnka það álag sem er á íbúðalánum miðað við grunnvexti.

Markaðir tóku tíðindunum fagnandi og hækkuðu helstu hlutabréfavísitölur vestra um 4 - 5,5%. Gengi Bandaríkjadollara lækkaði hins vegar talsvert gagnvart helstu myntum. Gagnvart evru hefur dollarinn lækkað um tæp 3% síðan í gærmorgun og gagnvart japönsku jeni nemur gengislækkun dollarans 2,5%. Gagnvart krónu hefur dollarinn lækkað um 2% frá í gærmorgun.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×