Erlent

Fritzl var dæmdur kynferðisbrotamaður

Josef Fritzl.
Josef Fritzl.

Josef Fritzl, sem handtekinn var í fyrradag fyrir að halda dóttur sinni fanginni í kjallara í 24 ár og eignast með henni sjö börn, á að baki sakaferil. Hann hefur bæði verið dæmdur fyrir kynferðisbrot og íkveikju eftir því sem breska blaðið Times greinir frá.

Fritzl mun hafa setið í fangelsi á sjöunda áratug síðustu aldar og munu nágrannar Fritzl hafa vitað af dökkri fortíð hans. Þannig munu sögusagnir hafa gengið í hverfinu um að hann hefði nauðgað konu og afplánað dóm vegna þess.

Sífellt fleiri koma fram og segja frá kynnum sínum af manninum, þar á meðal talsmaður í fyrirtæki þar sem hann vann á áttunda áratugnum. „Hann var frábær starfskraftur en það var eitthvað við hann sem maður áttaði sig ekki á, eins og það væri þekkt að hann hefði setið fangelsi fyrir kynferðisbrot," segir talsmaðurinn.

Austurríska blaðið Kurier greinir enn fremur frá því að einn af bræðrum Elisabeth hefði búið með foreldrum sínum í húsinu þar sem henni var haldið fanginni í kjallaranum og hefði í raun gengið börnum hennar og Josefs í föðurstað. Hvorki honum né öðrum systkinum Eliabeth mun hafa verið kunnugt um að systur þeirra væri haldið fanginni í kjallaranum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×