Viðskipti innlent

Bankahólfið: Baldur flottur á því

Baldur Guðnason
Baldur Guðnason
Baldur Guðnason hefur verið áberandi í íslensku viðskiptalífi á umliðnum árum, en lítið hefur þó farið fyrir honum eftir að hann hætti sem forstjóri Eimskips fyrir skemmstu. Eins og fram kom í upphafi mánaðarins seldi Baldur Eimskipafélaginu bréf fyrir hálfan þriðja milljarð, en viðskiptin voru hluti af lokauppgjöri vegna starfsloka Baldurs hjá félaginu. Voru bréfin sölutryggð miðað við gengi á kaupdegi og þurfti Eimskip því að taka á sig tæplega 900 milljóna króna tap, en hlutabréf í Eimskip höfðu lækkað umtalsvert í millitíðinni, eins og margt annað á markaðnum. Vinir Baldurs hafa fengið að njóta þessa, því á dögunum tók forstjórinn fyrrverandi sig til og bauð 20-30 manna hópi í sannkallaða lúxusferð með einkaþotu á leik í ensku knattspyrnunni með öllu tilheyrandi. Lending hvað?

Tuttugu ára verðbólgumet, hæstu vextir meðal þróaðra ríkja og lánsfjárerfiðleikar er veruleiki sem blasir við íslensku atvinnulífi í dag, sem og heimilunum í landinu. Búast má við að mörgum hitni í hamsi við þær verðbætur sem bætast við lán heimilanna um næstu og þarnæstu mánaðamót og engum dylst að góðærið hefur tekið enda og napur raunveruleikinn blasir við, heldur hráslagalegur. Í þannig ástandi er heldur hlálegt að helstu hagfræðingar þjóðarinnar skuli enn deila sín í millum um hvort lending íslensks hagkerfis teljist hörð eða vera snertilending. Af hverju nefnir enginn brotlendingu? Hverjum datt í hug að blanda flugmannamáli inn í þjóðhagfræðina sem hingað til hefur átt hugtök sem hæfa ástandinu hverju sinni?

Nú lágu Danir í því

Bréf í djásni dansks fjármálalífs, Danske Bank, féllu nokkuð í verði í gær eftir ársfjórðungsuppgjör sem olli nokkrum vonbrigðum. Hagnaður bankans minnkaði um þrjátíu prósent frá sama tímabili í fyrra og var um tveir milljarðar danskra króna. Heildartekjur drógust verulega saman, en rekstrarkostnaður jókst hins verulega.

Á undanförnum árum hefur Danski bankinn, eins og kunnugt er, margoft lýst yfir miklum áhyggjum af íslensku bönkunum og stöðu þeirra, en í dönskum fjölmiðlum í gær mátti sjá vangaveltur um að ef til vill ætti bankinn að líta sér nær í þeim efnum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×