Austurlandið.is

Fóður og fjör á Vesturlandi

Hátíðin Fóður og fjör eða Food & Fun verður haldin um allt land helgina 21. til 24. febrúar næstkomandi. Hótel og veitingahús í öllum landsfjórðungum hafa tekið sig saman með þetta skemmtilega verkefni á landsbyggðinni, verða með sérstök tilboð á mat og gistingu og lofa frábærri lífsstílshátíð sem lífga mun upp á skammdegið. Vestlendingar eru engir eftirbátar annarra landshluta í þessu og munu Hótel Hamar og Landnámssetrið í Borgarnesi, ásamt Hótel Glym í Hvalfirði taka þátt. Guðríður Haraldsdóttir verkefnisstjóri segir í samtali við Skessuhorn að gestakokkar og alls kyns gleði yrði á borðstólum þessa daga en þetta er í fyrsta sinn sem þessi hátíð er haldin á landsbyggðinni.
 
„Hótel Hamar býður upp á tónleika með South River Band á fimmtudeginum 21. febrúar ásamt girnilegum þríréttuðum matseðli. Þar verður síðan kaffihlaðborð með hnallþórum á sunnudeginum.“ Guðríður segir jafnframt að Hótel Glymur verði með klausturstemningu föstudagskvöldið 22. febrúar og kalla þau dagskrána „Kuflar og kelirí“. Kokkanemar munu sjá um skemmtilega tapasdiska og trúbadorar skemmta. Á laugardagskvöldinu verður þemað á Glym „Konur og kertaljós“ en þá elda gestakokkar frá Noregi, þær Heidi Rossland Asland og Bryndís Einarsdóttir, Grand Gala matseðil. Eitt og annað verður í boði í tilefni konudagsins daginn eftir. Á Landnámssetrinu verða sérstakir heiðursgestir sunnudagskvöldið 24. febrúar en það eru matgæðingarnir Jóhanna Vígdís Hjaltadóttir og Gísli Einarsson fréttamaður. Þar verða girnilegir réttir á hlaðborði og Jóhanna og Gísli munu ganga á milli gesta og spjalla um mat, lífið og tilveruna. „Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin á landsbyggðinni og ekkert hefur verið til sparað að hún verði sem glæsilegust. Undanfarin ár hefur þessi hátíð eingöngu verið í höfuðborginni en nú er brugðist við þeirri sjálfsögðu kröfu að færa hátíðina einnig út á land til að fleiri landsmenn fái notið hennar. Eins og allir vita er íslensk náttúrufegurð einstök, líka yfir vetrartímann,“ segir Guðríður. „Að ári verða vonandi miklu fleiri staðir á landsbyggðinni með en þetta er tilraunaverkefni. Ég hvet Vestlendinga, sem og aðra landsmenn, til að lýsa upp hversdaginn og drífa sig á Fóður og fjör á landsbyggðinni!“
 
 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.