Erlent

Lokaði dóttur sína niður í kjallara í 24 ár

Austurrísk kona segir föður sinn hafa haldið sér fanginni í kjallara á heimili sínu í 24 ár. Hún hefur alið honum sjö börn að sögn lögreglunnar.

Málið hefur vakið mikinn óhug í dag en konan sem heitir Elisabeth og er 42 ára gömul hefur sagt yfirvöldum að faðir hennar hafi misnotað sig frá ellefu ára aldri. Faðirinn er nú 73 ára gamall.

Konan hefur sagt lögreglunni að faðir hennar Jósef hafi tælt sig niður í kjallara á heimili þeirra í bænum Amstetten árið 1984. Síðan hafi hann gefið henni lyf og handjárnað áður en hann læsti hana inni.

„Hún hefur verið misnotuð stanslaust í þessi tuttugu og fjögur ár sem hún hefur verið í kjallaranum," segir í yfirlýsingu frá lögreglunni. „Þetta leiddi af sér sex börn."

Konan ól föður sínum sjö börn en eitt þeirra lést skömmu eftir að það fæddist að sögn konunnar. Hún segir föður sinn hafa fætt og klætt hana ásamt þremur börnum þeirra sem voru hjá henni í kjallaranum. Rosemarie eiginkona hans mun ekki hafa vitað af fólkinu í kjallaranum.

Upp komst um málið þegar elsta dóttirin sem er 19 ára varð alvarlega veik og þurfti á sjúkrahús í bænum.

„Nítján ára stúlka var skilin eftir fyrir utan sjúkrahús í bænum um síðustu helgi," sagði talsmaður lögreglunnar. „Stúlkan er alvarlega veik og berst nú fyrir lífi sínu. Leit að móðurinni sem hvarf var gerð til þess að afla fleiri upplýsinga um stúlkuna."

DNA sýni úr öllum meðlimum fjölskyldunnar hafa verið tekin og bíða nú niðurstöðu rannsókna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×