Lífið

Hamingjuleit í fjármálaheiminum

Gunnar Lárus Hjálmarsson skrifar
Ilmur Kristjánsdóttir leikur Ástríði í samnefndri þáttaröð.
Ilmur Kristjánsdóttir leikur Ástríði í samnefndri þáttaröð.
Ilmur Kristjánsdóttir leikur Ástríði í sjónvarpsþáttaröðinni Ástríður. Tökur hefjast í lok mánaðarins og Silja Hauksdóttur leikstýrir. Þetta verða tólf framhaldsþættir sem Stöð 2 sýnir, líklega skömmu eftir áramót.

„Ástríður er ung kona sem kemur úr námi erlendis og fer að vinna hjá fjármálafyrirtæki,“ segir Ilmur. „Þetta eru grín og dramaþættir sem fjalla um líf hennar og ástir. Þetta fjallar minna um fjármálaheiminn, þó við skyggnumst aðeins inn í hann.“

Ilmur segir handritshöfunda – Sigurjón Kjartansson, Silju leikstjóra, Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur og hana sjálfa – forðast samanburð við erlenda þætti en fer þó ekkert í vörn þegar nafn Allyar McBeal ber á góma. „Við erum ekkert að finna upp hjólið og vorum bara í þessu til að hafa gaman af því. Það er vonandi að áhorfendur hafi gaman af líka. Við þekkjum þennan heim úr amerískum þáttum en höfum aldrei séð þetta í íslensku umhverfi áður. Ég held að samsvörunin við íslenskan raunveruleika sé mjög þakklát. Við verðum alltaf ofsalega glöð ef við sjáum Laugaveginn í sjónvarpinu.“

Ástríður lendir í ýmsu í gegnum þættina tólf; karlamál og tilfinningakreppur, átök og ástríður, ber hátt eins og nafnið bendir til. „Ég vona að allar konur finni eitthvað af sér í Ástríði. Við sýnum íslenska kvennaheiminn og leit Ástríðar að sannleikanum og hamingjunni. Hvort hún finnur þetta tvennt í síðasta þættinum verður bara að koma í ljós.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×