Viðskipti innlent

Bankahólfið: Minnisleysa

Íslensk erfðagreining ku ætla að rannsaka hvaða erfðaþættir það séu sem hafi áhrif á minni, athygli og hraða hugsunar. Illkvittnir sáu samstundis glitta í gagnsemi rannsóknarinnar. Hægt væri að útbúa próf og síðar lyf með öfugri virkni fyrir þá sem keyptu hlutabréf í DeCode, móðurfélagi ÍE, á gráum markaði fyrir rúmlega sextíu dali á hlut. Gengi bréfanna hefur fallið um tæp hundrað prósent síðan þá og lafað undir dalnum, þannig að fáir eru eftir sem vilja kannast við að hafa fjárfest í félaginu á sínum tíma. Gráglettnir telja heppilegasta nafnið á lyfinu verða eitthvað á borð við Minnisleysa. Eins og stemningin hefur verið í Kauphöllinni upp á síðkastið munu óbreyttir fjárfestar eflaust ekki fúlsa við smáslettu.

Davíð á móti?

Sitt sýnist hverjum um ástæður hins bága efnahagsástands. Guðmundur Ólafsson hagfræðingur sagði við Vísi fyrr í vikunni að Seðlabankinn sé orðinn að einu helsta vandamáli þjóðarinnar. Bankinn þverskallist við að fylgja stefnu ríkisstjórnarinnar og besta dæmið sé sú töf sem er orðin á margumræddri lántöku til að styrkja gjaldeyrisforðann. „Mér skilst að Seðlabankinn taki ekki þetta lán af því að Davíð Oddsson seðlabankastjóri sé á móti því,“ sagði Guðmundur og telur einsýnt að skipta þurfi út seðlabankastjóranum – í eintölu – og bankaráði Seðlabankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×