Viðskipti innlent

Peningaskápurinn ...

Jón Ólafsson
Jón Ólafsson
Eins og kunnugt er hafnaði breskur dómsstóll frávísunarkröfu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í meiðyrðamáli hans og Jóns Ólafssonar í vikubyrjun. Jón höfðaði mál gegn Hannesi árið 2004 en Hannes hafði gefið í skyn í ræðu og á heimasíðu sinni að Jón hefði efnast á ólöglegan hátt. Var hann í kjölfarið dæmdur til að greiða Jóni átta milljónir króna í skaðabætur auk kostnaðar og vaxta. Áhugi fólks hefur greinilega vaknað á Jóni síðustu misserin en heyrst hefur að ævisaga hans frá árinu 2005 sé einkar vinsæl á bókamarkaðnum í Perlunni um þessar mundir. Bókin er á tæpar 700 krónur, sem er frekar lítið fyrir 500 blaðsíðna doðrant. Toppmenn í vatninuJón hefur slegið í gegn á fleiri stöðum en á bókamarkaðnum í Perlunni. Vatnsfyrirtækið Icelandic Water Holdings, sem Jón og Kristján sonur hans eiga að mestu og stýra og selur margverðlaunað átappað vatn úr Ölfusinu í flöskum undir merkjum Icelandic Glacial hefur verið á rjúkandi ferð upp á síðkastið. Fyrirtækið hefur fengið heilmikla athygli víða um heim, nú síðast á Óskarsverðlaunahátíðinni en þar svöluðu heimsþekktar en þorstlátar kvikmyndastjörnur sér á vatni feðganna úr Ölfusinu. Svo virðist sem hrakspár um efnahagssamdrátt hafi ekki ratað inn fyrir dyr Icelandic Water Holdings því fyrirtækið hefur fjölgað fólki á sama tíma og aðrir standa í uppsögnum. Á meðal nýráðinna starfsmanna eru tveir stórjaxlar úr bandarískum drykkjavörugeira. Þeir eru Daniel Stepper, frá Coke, og James Harris, sem áður var einn af markaðsstjórum Fiji Waters, helsta keppinauti Icelandic Glacial vestanhafs. Munu þeir eiga að hjálpa til við stóraukna markaðshlutdeild úti í hinum stóra og harða heimi vatnsbransans.




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×