Viðskipti innlent

Gæti orðið dýrt að halda bréfunum

„Hvert veltumetið á fætur öðru hefur verið slegið það sem af er ári. Gengi bæði verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa hefur hækkað töluvert. Það er mjög sjaldgæft að við sjáum svona miklar og kröftugar hreyfingar og við höfum orðið vitni að síðustu vikur,“ segir Hjördís Vilhjálms­dóttir, hagfræðingur hjá greiningu Glitnis.

Þegar gengi skuldabréfa hækkar, lækkar ávöxtunarkrafan. Á íbúðabréfum hefur ávöxtunarkrafan lækkað um 25 til 75 punkta það sem af er ár. Hjördís segir þær miklu sveiflur sem verið hafa á skuldabréfamarkaði endurspegla mismunandi væntingar á markaðnum um hvenær vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefjist. „Við hér í Glitni höfum spáð því að vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefjist í maí, en aðrir hafa talið að það hefjist fyrr á árinu. Ef okkar spá gengur eftir er hætt við því að það verði dýrt að halda bréfunum næstu mánuði, enda eiga menn þá kost á góðum peningamarkaðsvöxtum.“

Verðbólguvæntingar hafa jafnframt áhrif á verðtryggð skuldabréf. Lækkun á gengi krónunnar hefur allajafna þau áhrif að verðbólguhættan eykst og það þýðir að virði verðtryggðra skuldabréfa eykst og ávöxtunarkrafan lækkar. „Yfirleitt er það þannig að þegar krónumarkaðurinn hnerrar þá snýtir skuldabréfamarkaðurinn sér. Það hefur þó aðeins breyst undan­farið og stundum höfum við séð að gengi skuldabréfa lækkar þrátt fyrir lækkanir á gengi krónunnar. Þarna takast á sjónarmið um aukna hættu á verðbólgu og væntingar um að vaxtalækkun sé hugsanlega ekki alveg handan við hornið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×