Innlent

Stjórnarmyndunarviðræður hefjast á morgun

Fundi Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur lauk nú fyrir stundu. Þar sögðu þau að samkomulag hefði náðst um að hefja stjórnarmyndunarviðræður. Geir sagði að hann ætli að ganga á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, klukkan ellefu í fyrramálið og biðjast lausnar. Þá ætlar hann einnig að biðja um umboð til stjórnarmyndunar með Samfylkingunni.

"Við erum orðin ásátt um að hefja viðræður ef ég fæ til þess umboð frá forseta Íslands til að mynda nýja meirahlutastjórn. Ég mun ganga á fund forsetans klukkan 11 í fyrramálið og biðjast lausnar fyrir núverandi ráðuneyti mitt og fara á fram á umboð til að mynda nýja meirihlutastjórn með Samfylkingunni," sagði Geir.

Ingibjörg sagði þau ekki hafa komist langt á þessum stutta fundi og ekkert hefði verið rætt um málefni á honum. Hún telur þó líklegt að hægt sé að ná niðurstöðu í þeim málefnum sem skilið hafa á milli flokkanna.

Geir sagði að rætt yrði um að sameina ráðuneyti þegar þar að kæmi. Ekki hefur verið rætt um hugsanlega skiptingu ráðuneyta. Formennirnir tveir ætla að reyna að ljúka þessum viðræðum sem fyrst svo að ný stjórn geti tekið til starfa.

Aðspurður hvers vegna hann hefði valið Samfylkingu frekar en Vinstri græna sagði hann styttra á milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar málefnalega séð. Einnig sagði hann að með því að mynda stjórn með Samfylkingu næðist stærri og sterkari þingmeirihluti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×