Innlent

Árni færist að líkindum niður um eitt sæti

Landskjörstjórn fær í dag lista yfir útstrikanir á listum Sjálfstæðisflokks á Suðurlandi. Árni Johnsen mun að líkindum færast niður um eitt sæti en fimmtungur kjósenda flokksins strikuðu hann út. Það verður ekki fyrr en síðar í vikunni sem búið verður að fara yfir útstrikanir á Birni Bjarnasyni.

Tveir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins virðast hafa verið mest strikaðir út. Á Suðurlandi strikaði ríflega fimmtungur kjósenda flokksins yfir nafn Árna Johnsens. Kjörstjórn í kjördæminu mun síðar í dag skila af sér endanlegum tölum en eftir því sem næst verður komist mun Árni færast niður um eitt sæti á lista flokksins.

Þannig mun Kjartan Ólafsson færast upp fyrir Árna og verða annar kjördæmakjörinn þingmaður flokksins í kjördæminu en Árni verður þriðji í Suðurkjördæmi og er Björk Guðjónsdóttir nýr þingmaður flokksins, fjórði þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi. Karl Gauti Hjaltason, formaður yfirkjörstjórnar, átti von á því aðspurður að skil< landskjörstjórn niðurstöðunni úr kjördæminu síðar í dag.

Ekki liggur enn fyrir hversu margir strikuðu út Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sem var í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Sveinn Sveinsson, formaður kjörstjórnar, segir að unnið sé að því að fara yfir þessi atkvæði auk þeirra atkvæða þar sem kjósendur breyttu röð frambjóðenda. Þetta sé seinleg vinna og gæti tekið nokkra daga. Ekki liggur fyrir staðfest tala yfir fjölda þeirra sem strikuðu Björn Bjarnason út.

Óstaðfestar fréttir herma að 20 prósent hafi strikað yfir Björn. Sé það rétt færist hann niður um eitt sæti. Björn var í öðru sæti á lista flokksins en í þriðja og fjórða sæti eru nýi þingmaðurinn Illugi Gunnarsson og þingkonan Ásta Möller.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×