Innlent

Taka nokkra daga til að meta grundvöll fyrir áframhaldandi samstarfi

Formenn stjórnarflokkanna segjast ætla að taka sér nokkra daga til að meta hvort grundvöllur sé fyrir áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Formaður Vinstri grænna segir það fley svo laskað að það sé ekki haffært. Formaður Frjálslynda flokksins bauð í gærkvöldi upp á þann valkost að sinn flokkur kæmi inn í ríkisstjórnina.

Formenn stjórnmálaflokkanna komu saman í fyrsta sinn eftir að kosningaúrslit lágu fyrir á Stöð tvö í gærkvöldi. Þar kom skýrt fram að endurnýjun ríkisstjórnarsamstarfsins er fyrsti valkostur sem ræddur verður enda hélt stjórnin velli.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, sagði að ekki væri bara um reikningslegt atriði að ræða, þ.e. 32 þingmenn á móti 31, heldur þyrfti að vera pólitískur grunnur til að halda áfram samstarfinu. Flokkarnir myndu taka sér nokkra daga til að fara yfir málin.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarfllokksins, sagði enn fremur að verið væri að fara fyrir málefnalista og verkefni í baklandi flokkanna og næstu dagar færu í að meta stöðuna.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði ríkisstjórnina ekki á vetur setjandi og sömuleiðis Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna.

Ómar Ragnarsson, formaður Íslandshreyfingarinnar, sagði Framsóknarflokkinn hafa sterka stöðu í ljósi þess að hann hefði val um að mynda vinstri stjórn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×