Innlent

Deilt um auglýsingar á kjörstað

Mikið stapp hefur staðið yfir í Njarðvík í allan dag vegna auglýsinga Sjálfstæðisflokksins í félagsheimili flokksins. Auglýsingarnar voru sýnilegar frá kjörstað og slíkt er óheimilt samkvæmt lögum. Nú fyrir stundu voru auglýsingarnar fjarlægðar en Samfylkingarmenn í Reykjanesbæ eru ósáttir við það sem þeir kalla seinagang í málinu.

Ottó Jörgensen yfirmaður kjörstjórnar í Reykjanesbæ segir að málið sé leyst. „Þetta snýst um að kjörstaðurinn í Njarðvík er í 250 m fjarlægð frá félagsheimili sjálfstæðismanna í Njarðvík. Þar voru auglýsingar frá sjálfstæðismönnum í gluggum sem sáust frá kjörstað."

„Við funduðum um málið og komumst að þeirri niðurstöðu að merkingarnar skyldi taka niður og það hefur nú verið gert." segir Ottó.

Kjartan Sigtryggsson, starfsmaður Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ er afar ósáttur við vinnubrögðin í málinu. „ Í gær höfðum við samband við formann kjörstjórnar á svæðinu, og bentum honum á merkingarnar í Njarðvík. Hann lofaði að koma því áleiðis. Þegar ekkert hafði gerst á hádegi í dag hafði ég samband við lögregluna. Það er klárt að það má ekki auglýsa á kjörstað og þetta er því brot á lögum," segir Kjartan.

Ottó segir eðlilegar skýringar á seinaganginum. „ Við höfðum samband við yfirkjörstjórn og óskuðum eftir leiðbeinandi úrskurði. Sá úrskurður kom ekki fyrr en seint í dag. Þegar sú niðurstaða kom þá fórum við í vettvangskönnun eins og fyrirmæli voru um frá yfirkjörstjórninni. Síðan funduðum við aftur og niðurstaðan varð á þessa leið. Ég vona bara að þetta þurfi ekki að koma fyrir aftur."

Kjartan er líka afar ósáttur við þá staðreynd að Ottó Jörgensen, skuli vera yfirmaður kjörstjórnar í Reykjanesbæ, þar sem hann eiginkona hans, Björk Guðjónsdóttir, skipar fjórða sætið á lista sjálfstæðismanna, sem telst vera baráttusæti. Ottó segist hafa kannað þetta sérstaklega fyrir kosningar og segir engin lög mæla á móti því að hann gegni starfanum. „Ég kannaði það lagalega og í kosningalögum er tekið á þeim málum. Þeim sem eru í framboði er ekki heimilt að taka þátt í kjörstjórn en ég er ekki í framboði. Lögfræðingar segja mér að þetta sé allt í lagi," segir Ottó.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×