Innlent

Kjörsókn ívið minni víðast hvar

MYND/GVA

Kosningar til Alþingis hafa gengið vel fyrir sig það sem af er. Kjörsókn hefur víðast verið heldur dræmari en fyrir fjórum árum ef undan er skilið Norðvesturkjördæmi þar sem kjörsókn hefur verið töluvert meiri og á Akureyri hafa nokkuð fleiri greitt atkvæði en árið 2003.

 

Í Reykjavík höfðu 22.192 kosið klukkan tvö. Kjörsókn í Reykjavík Norður var 24,09 prósent og í Reykjavík Suður var hún 26,84 prósent. Meðaltalið í Reykjavík var því 25,46 prósent, en fyrir fjórum árum höfðu 29,89 prósent kjósenda mætt á kjörstað klukkan tvö. Það var hins vegar óvenju góð þáttaka, og er kjörsóknin í dag svipað og í alþingiskosningunum þar á undan.

 

Í stærsta kjördæminu, Suðvesturkjördæmi, höfðu 9703 kosið klukkan eitt eða 17,8 prósent þeirra sem eru á kjörskrá. Það eru ívið minni þáttaka en á sama tíma fyrir fjórum árum.

 

Í Suðurkjördæmi er ekki búið að taka saman tölur um heildarkjörsókn en í hádeginu hafði kjörsókn verið allt frá níu prósentum í Vestmannaeyjum og allt að 24,30 prósentum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Karl Gauti Hjaltason, formaður kjörstjórnar segir að kosningarnar hafi gengið vel fyrir sig það sem af er og að kjörsókn sé svipuð og í síðustu kosningum.

 

Í Norðvesturkjördæmi hefur kjörsókn víða verið betri en síðast. Þannig höfðu til að mynda 23.2 prósent kosið á Akranesi í Hádeginu og um 30 prósent í Grundarfirði. Ekki er búið að taka saman heildarkjörsókn í kjördæminu.

 

Í Norðausturkjördæmi eru heldur ekki komnar heildartölur yfir kjörsókn en 18 prósent Akureyringa höfðu mætt á kjörstað klukkan eitt. Það er tveimur prósentum betri kjörsókn en í kosningunum 2003. Búist er við heildartölum klukkan fjögur.

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×