Innlent

Rokkaður framboðsfundur

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar

Ungir frambjóðendur brugðu á leik í Stúdentakjallaranum í gærkvöldi ásamt rokkhljómsveitunum Vicky Pollard og Vafasöm síðmótun. Óhætt er að segja að framboðsfundurinn hafi verið fremur óhefðbundinn því hljómsveitirnar voru óhræddar við að þagga niður í frambjóðendum með því að þenja rafmagnsgítarana ef þeir héldu orðinu of lengi.

Áheyrendur voru flestir í yngri kantinum og málefnin sem helst brunnu á þeim þetta kvöld voru umhverfismál, jafnréttismál og hvers kyns félagslegt óréttlæti.

Vinstri grænir sendu meðal annars rokkarann Heiðu Eiríksdóttur sem er í þriðja sæti VG í Suðurkjördæmi og hún og Svanlaug Jóhannsdóttir frá Íslandshreyfingunni hófu leikinn með því að taka saman lagið. Helga Vala Helgadóttir sem skipar fimmta sæti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi var einnig óhrædd við að spreyta sig á sviðinu og flutti mikinn reiðilestur um menntamál með aðstoð bassa og trommu. Engir fleiri lögðu í að opinbera kunnáttu sína í pönki.

Aðrir þátttakendur voru til að mynda Jónína Byrnjólfsdóttir Framsókn, Sigríður Hallgrímdóttir og Arnar Þórisson Sjálfstæðisflokki, Reynir Harðarson Samfylkingu og Paul Nikolov frá Vinstri grænum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×