Innlent

Framsókn í sókn

MYND/Stefán Karlsson

Framsóknarflokkurinn er í stórsókn ef marka má nýja könnun Capacent Gallup sem sagt var frá í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins. Flokkurinn nálgast nú kjörfylgi sitt og mælist með tvöfalt meira fylgi en í Gallup könnun í fyrradag.

Framsóknarflokkurinn fengi 14,6 prósent atkvæða samkvæmt könnuninni væri gengið til kosninga í dag. Flokkurinn fékk hins vegar 7,6 prósent í könnun sama fyrirtækis í fyrradag og 9,8 prósent í gær. Samkvæmt könuninni fengi flokkurinn 9 þingmenn, en er með 11 í dag.

Sjálfstæðismenn tapa nokkru fylgi og nálgast líka kjörfylgi sitt. Flokkurinn fær 35,9 prósent samkvæmt Gallup en mældist með 42 prósent í fyrradag. Þessi niðurstaða myndi skila flokknum 24 þingmönnum sem er aukning um tvo.

Yrðu þetta niðurstöður kosninganna myndi ríkisstjórnin halda velli.

Í könnuninni mælist Samfylkingin með 25 prósent, fengi 17 þingmenn og tapaði þremur.

Vinstri græn tapa nokkru fylgi og fengju 14,5 prósent en bæta við sig fjórum þingmönnum frá því sem nú er og fengju 9 þingmenn.

Frjálslyndi flokkurinn bætir við sig og fær 6,6 prósent sem gæfi 4 þingmenn, sömu tölu þeir hafa í dag.

Íslandshreyfingin bætir einnig nokkru við sig og mælist flokkurinn nú með 3,3 prósent og kemur ekki inn manni.

Úrtak könuninnar taldi 1048 mannsm, nettósvarhlutfall var 64,1 prósent. 86,6 prósent nefndu tiltekinn flokk, 5 prósent neituðu að svara, 5,8 prósent sögðust óákveðnir og 4,6 prósent ætla að skila auðu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×