Innlent

Samið um kaup og þjálfun fimm blindrahunda

Skrifað var undir samkomulag milli ríkisins og Blindrafélagsins í morgun um kaup á fimm leiðsöguhundum fyrir blinda og sjónskerta. Það voru Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Halldór Sævar Guðbergsson, formaður Blindrafélagsins, sem undirrituðu samkomulagið í húsi Blindrafélagsins.

Í því felst að ráðuneytið leggur fram rúmlega 17 milljónir króna til að kaupa og þjálfa hundana fimm frá Noregi. Blindrafélagið leggur fram á móti um 8 milljónir króna en heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um 25 milljónir króna.

Fram kemur í tilkynningu að Blindrafélagið hafi gert samning við hundaskóla norsku blindrasamtakanna um að þjálfa leiðsöguhundana og notendur þeirra og fara þeir utan í lok mánaðar. Þess má geta að tveir blindrahundar hafa hingað til verið þjálfaðir hér á landi og er aðeins annar þeirra enn þá notaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×