Innlent

Merki sögð fengin að láni

Guðjón Helgason skrifar

Merki Íslandshreyfingarinnar er fengið að láni að mati prófessors í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Merkið er afar líkt vörumerki bandarísks hugbúnaðarfyrirtækis sem hefur verið starfandi síðan 1993. Einn viðskiptavina þess er álrisinn Alcoa.

Í fréttum Stöðvar 2 á dögunum var fjallað um ýmisvörumerki fyrirtækja sem væru lík öðrum út í hinum stóra heimi. Kveikjan var umræðan um merkið N-einn, sameinað félag ESSO, Bílanausts og fleiri fyrirtækja, sem þykir afar líkt merki N-fjögurra, fjölmiðlafyrirtækis á Akureyri.

Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í grafískri hönnun hjá Listaháskóla Íslands, segir ljóst að hugmyndir séu í grunninn ekki frumlegar, aðeins útfærsla þeirra. Hann hafi séð mörg dæmi svipuð því sem áður var nefnt. Unnið sé með frumform - ferninga eða þríhyrninga - og þá hljóti mörg þúsund merki að vera keimlík, en þó með blæbrigðamun.

Hann á ekki von á að eigendur N-fjögurra geti sótt bætur í hendur N-eins, til þess séu merkin of ólík. En þegar kemur að vörumerki Íslandshreyfingarinnar og Vörutorgsins á Skjá einum gegni öðru máli. Hann segir sláandi hvað þessi þau séu lík merki hugbúnaðarfyrirtækisins ESS annars vegar, og bandaríska háskólans Virgina Tech hins vegar.

Guðmundur Oddur segir merkin sterk. Ef Íslandshreyfingin ætli að nota fleiri en einn lit í sitt merki, rauðan, grænan og bláan, og hringform þar sem þeir veltist þá passi þetta en því miður sé fyrirmyndin til og augljóslega um eftirlíkingu að ræða. Auk þess sé hægt að finna fleiri skildar samsetningar á stöfunum v og t en Virginia Tech og Vörutorg en hér sé um eftirlíkingu að ræða engu að síður.

ESS hugbúnaðarfyrirtækið hefur verið starfandi síðan 1993 og fram kemur á vefsíðu þeirra að í hóp viðskiptavina þeirra hafi nú bættst álrisinn Alcoa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×