Innlent

Biðlistum í heilbrigðisþjónustu verði útrýmt

Biðlistar eftir heilbrigðisþjónustu barna og aldraðra eru svartur blettur á velferðarkerfi Íslendinga. Þeir eru birtingarmynd vanrækslu og skorts á samfélagslegri ábyrgð. Þetta sagði formaður þingflokks Samfylkingarinnar á blaðamannafundi í dag þar sem stefnumál flokksins í heilbrigðismálum voru kynnt.

Össur Skarphéðinsson var í miðju kafi að kynna tillögur Samfylkingarinnar þegar vindhviða varð þess valdandi að áhersluskilti flokksins féll á hann. Honum varð ekki meint af en uppskar hlátur meðal flokkssystkyna sinna og áhorfenda. Blaðamannafundurinn var haldinn utanhúss við Kringlu Landsspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður flokksins segir staðsetninguna táknræna fyrir þann hóp fólks á biðlistum sem ekki komist inn á spítalana.

Áherslumál flokksins eru meðal annars þau að útrýma biðlistum á Barna- og unglingageðdeild, Greiningarstöð ríkisins vegna greiningar á þroskafrávikum barna og vegna hjúkrunarrýma fyrir aldraða.

Nú bíða hátt í 500 börn eftir þjónustu Greiningarstöðvar ríkisins og BUGL og 20-30 mikið veik börn bíða eftir innlögn. Samfylkingin vill að veitt verði bráðaþjónusta á BUGL allan sólarhringinn.

Um það bil 400 aldraðir bíða í brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum og 900 manns til viðbótar þurfa að deila herbergi með öðrum. Flokkurinn vill byggja upp 400 hjúkrunarrými og setja upp sólarhringsþjónustu Landsspítalans við þá sem kjósa að búa heima. Það sé hagkvæmara og mikill kostur fyrir þá sem það kjósa. Ingibjörg segir að ekki sé hægt að sætta sig við að aldraðir í brýnni þörf séu í heimahúsi án viðunandi þjónustu.

Launamál og skortur á hjúkrunarstarfsfólki hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið. Ingibjörg segir að Samfylkingin muni beita sér fyrir hækkun launa í stéttinni og endurmat á hefðbundum kvennastörfum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×