Innlent

Ekki bætt úr plássleysi fyrr en félagslegt húsnæði fæst

Ekki verður bætt úr plássleysi á geðdeildum Landspítalans fyrr en búið er að útvega geðsjúkum félagslegt húsnæði. Þetta kom fram í máli heilbrigðisráðherra í gær.

Málefni geðdeildar Landspítalans hafa verið til umfjöllunar hjá fréttastofu Stöðvar 2 síðan í síðustu viku þegar við sögðum frá því að þunglyndissjúklingur í sjálfsvígshugleiðingum hefði verið læstur inni á baðherbergi í tvo sólarhringa á geðdeildinni vegna plássleysis.

Yfirlæknir á geðdeild sagði aðstæður sjúklingsins fyrir neðan allar hellur og ómannsæmandi. Þá sagði framkvæmdastjóri Geðhjálpar að geðdeildarplássum hefði fækkað um 120 á síðustu tíu árum.

Rúmlega fimmtíu sjúklingar geta ekki útskrifast af geðdeild af því að viðeigandi húsnæði er ekki til - á meðan geta ekki nýir komist í þau pláss. Milljarður af Símapeningunum var tekinn frá fyrir geðfatlaða, meðal annars til að byggja og kaupa húsnæði.

Þær upplýsingar fengust í gær að sex til sjö einstaklingar sem nú búa á geðsviði fái inni í nýju húsnæði á þessu ári. Fjörutíu og fimm til viðbótar geta flutt af geðsviði á næstu þremur árum, fimmtán á ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×