Innlent

Veitingamenn eiga eftir að skila neytendum verðlækkun

MYND/AP

Alþýðusamband Íslands segir ljóst að veitingamenn eigi enn eftir að skila neytendum þeirri verðlækkun sem til átti að koma vegna lækkunar á virðisaukaskatti.

Í frétt á heimasíðu ASÍ er fjallað um breytingar á vísitölu neysluverðs en verðbólga mælist nú 5,3 prósent samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Bent er á að verð á mat- og drykkjarvörum hafi lækkað um nærri prósentustig mánaða og að ætla megi að þar sé að skila sér hluti þeirra lækkana sem varð á vörugjöldum þann 1. mars. Gert hafi verið ráð fyrir að afnám vörugjalda skilaði 1,3 prósenta verðlækkun á mat- og drykkjarvörum en ætla megi að sú lækkun geti tekið 2-3 mánuði að skila sér að fullu.

Þá er bent á í frétt ASÍ að breytingar á virðisaukaskattinum þann 1. mars hafi átt að ná til fleiri liða vísitölu neysluverðs, þar á meðal lækkun á virðisaukaskatti á veitingahúsum. Áætlað hafi verið að sú breyting hefði tæplega níu prósenta áhrif til lækkunar á veitingarlið vísitölunnar en við síðustu mælingu vísitölunnar í mars hafi verð á veitingahúsum einungis lækkað um 3,2 prósent frá því í febrúar.

Vonir hafi staðið til þess að veitingamenn myndu lækka hjá sér verð og skila lækkun á virðisaukaskattinum til neytenda en það sé hins vegar ekki raunin því veitingarliður vísitölunnar nú sé nánast óbreyttur frá því í marsmánauði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×