Innlent

Óhjákvæmilegt að fella synjunarvald forseta úr stjórnarskrá

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. MYND/Stöð 2

Sjálfstæðismenn telja óhjákvæmilegt að fella úr gildi ákvæði um synjunarvald forseta í stjórnarskrá við þá endurskoðun stjórnarskrár sem nú stendur yfir. Þetta kemur fram í ályktun landsfundar flokksins um réttarfars- og stjórnskipunarmál.

Þá segir enn fremur í ályktuninni að alllar breytingar á stjórnarskrá Íslands eigi að vera teknar af auknum meirihluta þeirra sem ákvörðunina taka. Þá verði jafnframt hugað að almennri heimild í stjórnarskrá til þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál og að breytingar á stjórnarskránni verði bornar undir atkvæði þjóðarinnar.

Í sömu ályktun segir landsfundurinn brýnt að fækka ráðuneytum, t.d. með sameiningu í eitt atvinnuvegaráðuneyti og eitt velferðarráðuneyti. Samhliða endurskoðun ráðuneyta eigi að fara yfir hlutverk einstakra ríkisstofnana.

Þá fagnar fundurinn þeirri endurskoðun sem hafin hafi verið á lögum um meðferð opinberra mála og segir mikilvægt að stofnað verði millidómstig í sakamálum. Þá vill flokkurinn að dómstólar eigi að taka ákvarðanir um samfélagsþjónustu í stað afplánunar fangelsisvistar í stað fangelsisyfirvalda enda sé þar um að ræða ákvarðanir sem feli í sér breytingar á ákvörðunum dómstóla. Þá beri að efla eftirlit með og stuðning við þá sem eru á skilorðsbundinni reynslulausn.

Þá leggur landsfundurinn til að kannaðir verði kostir þess að heimila rafræna kjörskrá við framkvæmd kosninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×