Innlent

Stærstu flokkarnir með landsfundi um helgina

Tveir stærstu stjórnmálaflokkarnir á Alþingi halda landsfundi sína um komandi helgi. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst í dag og Samfylkingarinnar á morgun.

Setning landsfundar Sjálfstæðisflokksins fer fram í Laugardalshöll klukkan hálfsex í dag, en húsið verður opnað fyrir landsfundarfulltrúa klukkan tvö. Flestir bíða að sjálfsögðu ræðu Geir H. Haarde, formanns flokksins, en í henni munu væntanlega verða dregin upp helstu stefnumál Sjálfstæðismanna fyrir komandi kosningar.

Þetta er fyrsta landsfundarræða Geirs í formannsstóli fyrir kosningar og því forvintilegt að heyra hvernig hann leggur línurnar fyrir lokahnykk kosningabaráttunnar. Landsfundinum verður svo framhaldið á morgun þar sem ráðherrar flokksins munu meðal annars sitja fyrir svörum hjá landsfundarfulltrúum. Fundinum lýkur svo með afgreiðslu ályktana á sunnudag og kveðjuræðu formannsins.

Landsfundur Samfylkingarinnar hefst í Egilshöll klukkan ellefu í fyrramálið. Málefnavinna starfshópa verður fram eftir degi en setningarathöfn hefst klukkan fjögur með ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns flokksins, sem eins og formaður Sjálfstæðisflokksins leiðir nú flokk sinn í fyrsta skipti í kosningum til Alþingis.

Flokkurinn hefur átt á brattan að sækja í könnunum undanfarna mánuði, og því verður fróðlegt að heyra hvernig formaðurinn hyggst leiða flokkinn upp á við á næstu vikum. Sérstakir gestir á landsfundi Samfylkingarinnar verða Mona Sahlin, leiðtogi sænskra jafnaðarmanna, og Helle Thorning, Schmidt leiðrogi danskra jafnaðarmanna. Landsfundi Samfylkingarinnar lýkur með lokahófi á Grand hóteli á laugardagskvöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×