Fótbolti

Frækinn sigur AZ á Newcastle

NordicPhotos/GettyImages

AZ Alkmaar vann í kvöld góðan 2-0 sigur á Newcastle í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum Evrópukeppni félagsliða og sendu þar með enska liðið úr keppni þrátt fyrir 4-2 tap í fyrri leiknum á Englandi. Grétar Rafn Steinsson var á sínum stað í vörninni hjá hollenska liðinu sem er greinilega til alls líklegt í keppninni. Shota Arveladze og Danny Koevermans skoruðu mörk AZ í kvöld, en liðið hefði vel geta unnið stærri sigur.

Dramatíkin var sannarlega í fyrirrúmi í síðari viðureign Shathtar Donetsk og Sevilla, en þar var það markvörður Sevilla sem tryggði liði sínum framlengingu með því að skora með skalla eftir hornspyrnu í uppbótartíma venjulegs leiktíma. Hann jafnaði metin í 2-2 og í framlengingu skoraði Chevanton sigurmark spænska liðsins sem fór áfram 5-4.

Espanyol fer áfram í 8-liða úrslitin eftir 4-0 sigur á Haifa í kvöld og 4-0 samanlagt. Loks varð Benfica síðasta liðið til að tryggja sig áfram í 8-liða úrslitin með 3-1 sigri á PSG á heimavelli og samanlagt 4-3.

Liðin sem komin eru áfram í 8-liða úrslitin eru því Tottenham, Leverkusen, Bremen, Osasuna, Sevilla, Espanyol, Benfica og AZ Alkmaar. Dregið verður í 8-liða úrslitin í Glasgow í Skotlandi á hádegi á morgun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×