Fastir pennar

Tvískinnungur í skólamálum

Á tyllidögum er gjarnan talað um mikilvægi menntunar. Rætt er um að menntun sé lykillinn að velsæld lítillar þjóðar og að Íslendingar eigi að skipa sér í fremstu röð þegar kemur að menntun.

Þegar á hólminn er komið virðist stundum lítil innistæða fyrir þessum orðum. Launanefnd sveitarfélaga og samninganefnd Kennarasambands Íslands hafa ekki náð samkomulagi um leiðréttingu á launum kennara eins og endurskoðunarákvæði samnings þeirra kveður á um og svo virðist sem upp úr samningaviðræðum hafi slitnað.

Formaður Kennarasambandsins hefur þó sýnt fram á að laun kennara hafi hækkað verulega minna á samningstímanum en önnur laun í samfélaginu. Byrjunarlaun kennara sem ekki er orðinn þrítugur eru nú 198.741 króna á mánuði. Hafi hann umsjón með 20 nemendum eða fleiri hefur hann 210.844 krónur í laun á mánuði.

Mánaðarlaun kennara sem er orðinn 45 ára og með umsjón í jafnstórum bekk eru 240.592 krónur, hafi hann ekki tekið á sig umframskyldur sem raða honum í hærri flokk. Þetta eru laun kennara með þriggja ára háskólanám að baki. Ekki þarf frekar vitnanna við um að þarna er úrbóta þörf Kröfur til grunnskólakennara á Íslandi hafa aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Kennarar dagsins í dag eru ekki bara kennarar heldur einnig uppalendur enn frekar en áður var.

Skóladagur barna hefur lengst og hlutdeild skólans í daglegu lífi þeirra þar með aukist. Auk þess hefur stefna síðustu ára og áratuga verið að öll börn eiga rétt til skólagöngu í heimaskóla sínum. Þetta þýðir að hver kennari hefur með höndum kennslu á hópi barna sem getur haft afar mismunandi námsforsendur en hlutverk kennarans er að sjá til þess að kenna þessum breiða hópi barna, hverju þeirra á sínum forsendum. Við þetta bætist að skólinn og kennarar þar með, eru undir smásjá foreldra sem eru iðulega afar meðvitaðir um þær skyldur sem skólinn á að uppfylla við börn þeirra. Það er því löngu liðin tíð að kennarinn sé ósnertanlegur og orð hans lög.

Forsætisráðherra vísar kjaradeilunni til aðila málsins, sveitarfélaga og kennara. Ljóst er hins vegar að ef upplausnarástand skapast í grunnskólanum einu sinni enn þá hljóta yfirvöld menntamála að verða kölluð til ábyrgðar. Slíkt upplausnarástand getur haft neikvæð áhrif á starf skóla um langan tíma, eins og dæmin sanna. Sé það svo að sveitarfélögin í landinu hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að greiða kennurum laun í samræmi við ábyrgð þeirra og menntun þá verður að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga.

Þjóð sem leggur metnað í að eiga háskóla í hópi hundrað bestu í heimi hlýtur einnig að hafa metnað til þess að greiða grunnskólakennurum mannsæmandi laun. Hún hlýtur að vilja tryggja að vinnufriður og starfsánægja ríki meðal þess stóra hóps framúrskarandi kennara sem sinnir uppfræðslu barnanna sem síðar setjast á skólabekk í þessum háskóla



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×