Innlent

Dómur fallinn í Bubbamáli

Fyrrverandi ritstjóri Hér og Nú, Garðar Örn Úlfarsson var í dag dæmdur í Hæstarétti til þess að greiða Bubba Morthens 700 þúsund krónur í miskabætur fyrir umfjöllun blaðsins undir yfirskriftinni "Bubbi fallinn".



Forsíðufyrirsögnin "Bubbi fallinn" er dæmd ærumeiðandi og dauð og ómerk. Í reifun dómsins segir að ekki sé unnt að skilja fyrirsögnina öðruvísi en að fullyrt sé að Bubbi sé byrjaður að neyta vímuefna að nýju. Þorra þjóðarinnar væri kunnugt um vímuefnaneyslu hans fyrr á árum.

Í umfjöllun blaðsins var vísað til þess að Bubbi væri fallin á reykingabindindi. Þá féllst Hæstiréttur einnig á að þau rök Bubba að birting á myndum af honum í bíl sínum hafi verið brot á friðhelgi einkalífsins. Slík birting væri eingöngu réttlætanleg ef hún teldist þáttur í þjóðfélagsumræðu og ætti erindi við almenning. Þau rök ættu ekki við um ljósmyndirnar.

Bubbi vildi 20 milljónir í bætur en fær 700 þúsund en auk þess er ritstjórinn fyrrverandi dæmdur til að borga milljón í málskostnað fyrir héraði og Hæstarétti.

Málið dæmdu Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson. Lögmaður ritstjórans og 365 miðla segir til skoðunar að vísa málinu til Mannréttindadómstólsins í Strassburg.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×