Innlent

Vilja að ákæru um samráð verði vísað frá

Verjendur forstjóra olíufélaganna þriggja sem sæta ákæru í samráðsmálinu á hendur olíufélögunum kröfðust þess í héraðsdómi í morgun að málinu yrði vísað frá. Allir þrír ákærðu voru viðstaddir þingfestingu í héraðsdómi í morgun.

Forstjórarnir í olíusamráðsmálinu mættu allir ásamt verjendum sínum í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun til að vera við þingfestinguna. Þeir vildu hins vegar ekki ræða við fjölmiðla en sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þess er krafist að málinu verði vísað frá og allur sakarkostnaður felldur á ríkissjóð.

Verjendurnir segja ákæruna ekki vera í samræmi við lög um meðferð opinberra mála að því leyti að ákæran sé óskýr hvað varði hlut sakborninga í refsiverðri háttsemi. Þá sé hún hlaðin skriflegum útlistunum og málflutningi sem ekki eigi heima í opinberu ákæruskjali. Ekki sé hægt að refsa einstaklingum fyrir þá háttsemi sem lýst sé í ákæru auk þess sem rannsókn sé ábótavant.

Þá hafi verið brotið gegn réttarstöðu sakborninga með þeim hætti að ekki verði bætt úr undir rekstri málsins. Útgáfa ákæru sé andstæð jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og refsikrafa andstæð banni við því að leggja oftar en einu sinni refsingu á aðila fyrir sömu háttsemi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×