Viðskipti innlent

Banakahólfið: Hvað á barnið að heita?

Sumir hafa af því nokkuð gaman að fletta Lög­birtingar­blaðinu. Til dæmis eru þar birt í löngum röðum nöfn fyrirtækja og félaga sem stofnuð hafa verið utan um hvers kyns rekstur. Allur gangur er á hvernig fólki tekst til við nafngiftir og vissara að vanda til þær strax í byrjun. Þannig var augljóslega ekki grundvöllur fyrir Grundvelli, þar sem skiptum lauk fyrir helgina. Á föstudag voru líka ótal ný félög kynnt til sögunnar. Þar á meðal eitt sem starfar við hugbúnaðargerð, hefur starfsemi tengda veraldarvefnum, stendur að sölu á stafrænu og þar fram eftir götunum. Nafnið... Gogoyoko ehf. Í sama holli voru líka félögin Amma Habbý, Goðafélagið, Krummasteinn, Uomo, Þrír litlir pizzastrákar, Hár-Berg, og fjöldi annarra. Góðgæti uppselt

Greint er frá því í forsíðufrétt Bændablaðsins að torvelt sé um þessar mundir að verða sér úti um sviðalappir, en slíkur herramannsmatur njóti jú næstum jafnmikilla vinsælda og svið gera. Torveldar framleiðsluna að dýralæknar leggist á móti flutningi lappanna milli svæða af ótta við riðusmit. Fjallalamb á Kópaskeri, en Kópasker mun vera hreint af kindasjúkdómum, er þó sagt hafa boðið upp á sviðalappir, en birgðir frá haustslátrun séu nú á þrotum. „En strax eftir áramótin verður haldið áfram að svíða og verður þá nóg til af þessu góðgæti allt árið," segir í Bænda­blaðinu.

Davíð og dótabúðin

Davíð Oddsson Seðlabankastjóri var við síðustu stýrivaxtaákvörðun spurður hvort opnun tveggja stórra leikfangaverslana gæti haft áhrif á efnahaginn og eyðsluna. Davíð sagði fátt um það, en undraðist viðbrögðin. Það væri eins og hér hefði aldrei fyrr verið opnuð dótabúð.

Leikfangaverslunin Bara fyrir börnin segir í auglýsingum að Seðlabankastjóri beini þeim tilmælum til fólks að vera hagsýnt við leikfangakaup og auglýsir mikla lækkun.

Það skyldi þó ekki hafa falist í orðum Seðlabankastjórans að fólk ætti að kaupa minna af dóti en ekki meira?





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×