Erlent

Forn handrit upp á yfirborðið á ný

Bærinn Pompeii með Vesúvíus í baksýn
Bærinn Pompeii með Vesúvíus í baksýn
Fornleifafræðingar hafa hafið á ný uppgröft forns handritasafns sem staðsett er í rústum rómversku borgarinnar Herculaneum á Ítalíu og er talið innihalda ævaforn grísk og rómversk handrit.

Handritin týndust þegar eldfjallið Vesúvíus gaus árið 79 með þeim afleiðingum að borgirnar Pompeii og Herculaneum grófust í ösku.

Handritasafnið er til húsa í síðarnefnda bænum, í byggingu sem var í eigu Luciusar Calpruniusar Piso, en hann var tengdafaðir Júlíusar Sesars, keisara Rómaveldis.

Byggingin fannst fyrir tilviljun á nítjándu öld þegar nokkrir verkfræðingar grófu fyrir brunni. Þeir grófu göng sem leiddu þá óvænt að fögrum rómverskum höggmyndum og um 1800 papýrusrúllum sem innihéldu meðal annars verk eftir gríska heimspekinginn Fílódermus. Höggmyndirnar og handritin eru nú í fornleifasafninu í Napólí.

Fyrir tíu árum uppgötvuðust tvær hæðir til viðbótar í byggingunni og ýtti sá fundur undir vonir um að fleiri handrit gætu hugsanlega fundist. Uppgreftrinum var þó hætt árið 1998 þar sem ekki fengust styrkir til þess að halda áfram með verkið.

Nýlega bárust verkefninu styrkir frá nokkrum aðilum, þar á meðal Evrópusambandinu, og því er nú hægt að halda verkefninu gangandi til nokkurra ára. Rústirnar hafa verið opnar almenningi en þeim hefur verið lokað að nýju til þess að fornleifafræðingar geti unnið truflunarlaust að rannsóknum og forvörslu rústanna.

Sumir fræðimenn trúa því að handritin sem finna má í byggingunni innihaldi verk eftir ekki ómerkari menn en Aristóteles, Evrípídes og Sófókles og að því sé það forgangsatriði að halda uppgreftrinum áfram.- vþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×