Viðskipti innlent

Peningaskápurinn...

Öryggið á oddinnEkki gekk alveg áfallalaust að koma gestum með flugi frá Reykjavíkurflugvelli á fjárfestakynningu FL Group í Lundúnum í gær. Fara átti í loftið klukkan átta að morgni, en vegna þess hversu hægt gekk í öryggisskoðun var töfin orðin klukkustund þegar allir voru komnir um borð, sumir hverjir án tannkrems, rakspíra og hárgels sem er víst meðal stærstu ógna flugöryggis. Þá tók ekki betra við því við talningu virtist farþega ofaukið, en eftir mikið japl, jaml og fuður kom í ljós að láðst hafði að taka miða af brottfararspjaldi innanbúðarmanns hjá FL Group og laumufarþegi því ekki um borð. SjónhverfingamaðurinnÞegar lagt var í loftið var töf því orðin nærri tveir klukkutímar, en gestir FL Group létu það þó ekki slá sig út af laginu, enda hafa víðförlir menn í viðskiptum (ætli ekki hafi þarna verið fjórar eða fimm konur meðal fimmtíu karla) lent í ýmsu á ferðum sínum. Sumir slógu á létta strengi og vakti meðal annars kátínu eins af spaugsamari mönnum viðskiptalífsins að kvikmynd flugsins var gæðamyndin „The Illusionist" eða „Sjónhverfingamaðurinn". Taldi hann að val á mynd með þetta heiti hlyti að vera óheppilegt í flugi á leið á fjárfestakynningu þar sem fara ætti yfir gengi og horfur í einu umsvifamesta fjárfestingarfyrirtæki landsins.




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×