Viðskipti innlent

Bankahólfið: Forstjóraflétta

.Bjarni Ármannsson
.Bjarni Ármannsson
Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis, hefur fundið sig vel í starfi stjórnar­formanns Reykjavík Energy Invest. Það er ekki mikið mál fyrir reynslubolta úr viðskiptalífinu að hoppa á milli starfa sem eru ólík en eiga samt mikið sameiginlegt. Margir eigendur fyrir­tækja vildu líka nýta sér krafta Bjarna þegar ljóst varð að hann ætti ekki lengur samleið með hluthöfum Glitnis. Menn innan Icelandair ljáðu meðal annars máls á því hvort hann vildi ekki snúa sér að flugrekstri félagsins. Ekki mun forstjórinn fyrrverandi hafa viljað það en benti á félaga sinn, Jón Diðrik Jónsson, fyrrverandi forstjóra Glitnis á Íslandi. Úr því varð ekki. Jón Karl Ólafsson hélt djobbinu og Jón Diðrik hefur hafið störf fyrir Reykjavik Energy Invest. Finnair-fíaskó

Ólíklegt er að fjöldi fólks frá Íslandi, sem var á leið heim frá Nordisk Panorama í Oulo í Finnlandi, sæki fast að fjárfesta í Finnair fljótlega, þar sem FL Group er næststærsti eigandinn á eftir finnska ríkinu. Þegar ferðalangarnir höfðu komið sér þægilega fyrir í sætum Finnair-vélarinnar á leið til Helsinki var ekki hægt að taka á loft. Hurð vélarinnar stóð á sér og lokaðist ekki almennilega. Eftir nokkra seinkun var haldið af stað og klakklaust lent á leiðar­enda. Frá Helsinki átti svo að fljúga aftur með Finnair til Kaupmannahafnar. En vélin fór ekki á loft. Nú voru ljós vélarinnar í lamasessi. Þurftu þreyttir farþegar að bíða aftur eftir viðgerð. Ekki fylgdi sögunni hvernig gekk að fljúga síðasta legginn - líklega með Icelandair.

Mótvægis­að­gerð­ir tefja framfarir

„Mörgum fannst það einkennilegt afturhvarf til fortíðar þegar ríkisstjórnin boðaði „aðgerðir“ í atvinnumálum víða um land,“ segir í Öðrum sálmum nýjasta heftis Vísbendingar. Vísað er til aðgerða vegna niður­skurðar fiskveiðiheimilda og rifjað upp „sjóðasukk“ fyrri ríkisstjórna. Boðaðar aðgerðir eru engu að síður sagðar skynsamlegar einar og sér, þótt þær hafi líklega lítil áhrif á einstaklinga sem missa vinnu í sjávarútvegi. Fremur en að leita til ríkisstjórnarinnar er í Öðrum sálmum hvatt til sjálfsbjargarviðleitni. „Nú er lag að sameina útgerðarfyrirtæki og fækka fiskvinnsluhúsum. Allar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnar­innar verða til þess að tefja nauðsynlegar framfarir í greininni.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×