Viðskipti innlent

Reykjavík dýrari en Köben

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn.

Eftir því sem fyrirtæki verða alþjóðlegri því algengara verður það að skrásetja félög í fleiri en einni kauphöll. Kaupþing er skráð á tveimur stöðum og Föroya Banki, sem fór á markað í vikunni, er annað dæmi um fyrirtæki sem er skráð í tvær kauphallir, annars vegar í Kauphöll Íslands og hins vegar í Kaupmannahöfn. Mikil viðskipti voru með bréf félagsins á fyrsta degi og hækkaði gengið um 29 prósent á Íslandi.

Lokagengið í Reykjavík var 243 danskar krónur á hlut en hins vegar aðeins 230 í Kaupmannahöfn eða 5,3 prósentum lægra. Útsjónarsamir spekúlantar gátu því hugsanlega grætt á þessum mikla gengismun milli kauphalla: Keypt í Kaupmannahöfn og selt í Reykjavík. Það kom ekki á óvart að gengið leiðréttist við opnun markaða í Kaupmannahöfn í gærmorgun.

Garðslagur í vændum

Skoski auðjöfurinn sir Tom Hunter hefur enn aukið við hlut sinn í skosku garðvörukeðjunni Dobbies og fer nú með fjórðungshlut í henni. Það er talið nægja honum til að hindra yfirtöku Tesco á henni.

Hlutur Hunters í Dobbies hefur stækkað hratt. Þegar Tesco lagði fram yfirtökutilboð sitt upp á tæpar 156 milljónir punda, jafnvirði 19,7 milljarða íslenskra króna, um miðjan mánuðinn, fór hann með um 10 prósent.

Kaupþing í Bretlandi er bakhjarl Hunters í fjárfestingum í Bretlandi en fjölmiðlar þar í landi hafa velt því fyrir sér hvort Baugur og fleiri fjárfestar sem hafi verið samferða í öðrum kaupum muni koma að yfirtökutilboði í Dobbies fari hann gegn Tesco.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×