Skoðun

Ráðalaus sjávarútvegsráðherra

Sigurjón Þórðarson skrifar

Einar Kristinn Guðfinnsson var um árabil mjög gagnrýninn á kvótakerfið en eftir að hann gerðist ráðherra hefur hann miklu frekar orðið þræll kvótakerfisins en stjórnandi. Á vordögum fengu landsmenn enn eina staðfestingu á því að kvótakerfið hefur mistekist. Ráðgjöf Hafró er að landsmenn skuli veiða einungis þriðjung þess þorskafla sem fiskaðist að jafnaði fyrir daga kvótakerfisins.

Viðbrögð ráðherra við niðurskurðartillögum Hafró voru að fara vel yfir stöðu mála og leita víðtæks samráðs og gaumgæfa hvernig taka skuli á málum. Sjávarútvegsráðherra minntist einnig á að hann hefði falið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að gera sérstaka úttekt á þjóðhagslegum áhrifum af breyttri aflareglu. Það þarf ekki skýrslur frá Hagfræðistofnun til að sýna fram á að því færri þorskar sem berast á land þeim mun minni tekjur verða af sjávarútvegi.

Deilt er um hvort ráðgjöf Hafró um niðurskurð á afla sé til þess fallin að byggja upp stofninn. Við sem höfum gagnrýnt það höfum bent á að einstaklingsvöxtur er í sögulegu lágmarki og þess vegna ekki til nokkurs að vernda fisk sem ekki er að vaxa að ráði. Það er ekki heldur hægt að sjá beint orsakasamhengi á milli stórs hrygningarstofns og mikillar nýliðunar. Á þetta hafa fjölmargir bent, s.s. Rögnvaldur Hannesson fiskihagfræðingur. Skýrsla ICES, Alþjóðahafrannsóknaráðsins, frá árinu 2006 greinir frá nýlegum merkingaverkefnum sem sýna svart á hvítu að veiði úr þorskstofninum við Ísland er margfalt minni en stofnlíkan Hafró gefur til kynna.

Það er grafalvarlegt að sjávarútvegsráðherra hefur ekki haft fyrir því að fara yfir gagnrýni málsmetandi fiskifræðinga, s.s. Jóns Kristjánssonar, á núverandi líffræðilegar forsendur kvótakerfisins þrátt fyrir fagurgala um að nú eigi að leita samráðs. Með fullri virðingu fyrir Hagfræðistofnun og þeim góðu störfum sem þar eru unnin hlýtur að vera nærtækara að fela Líffræðistofnun Háskólans að fara yfir forsendur á því hvort minnkað veiðihlutfall sé líklegt til þess að auka nýliðun.

Íslendingar hljóta að gera þá kröfu til ráðherra að hann fari yfir öll rök í málinu og leiti sérstaklega svara hjá sérfræðingi sem hefur verið fenginn til ráðgjafar hjá Færeyingum með mjög góðum árangri.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×