Innlent

Misvísandi kannanir á lokasprettinum

Fjórar nýjar skoðanakannanir um fylgi flokkanna birtust í gær en engar þeirra voru samhljóma um hvernig kosning­arnar gætu farið í dag.

Mestu munar á fylgi Sjálfstæðisflokksins í þessum könnunum. Í könnun Félagsvísindastofnunnar mældist fylgið 36,0 prósent en 44,7 prósent hjá Blaðinu. Allar kannanir mæla flokkinn nokkuð yfir kjörfylgi síðustu kosninga þegar flokkur­inn hlaut 33,7 prósent atkvæða, en sögulega var það nokkuð slök útkoma.

Næstmestur munur er á fylgi Samfylkingar, 5,9 prósentustig, en eftir því sem flokkarnir mælast með meira fylgi eru skekkjumörkin hærri. Mest mælist fylgið hjá Félagsvísindastofnun, 29,3 prósent, en minnst mælist fylgið hjá Fréttablaðinu, 24,6 prósent. Allar kannanirnar mæla Samfylkingu undir kjörfylgi 2003, þegar flokkurinn hlaut 31 prósent atkvæða og allar kannan­irnar, fyrir utan könnun Félags­vísindastofnunar, mælir flokkinn undir kjörfylgi 1999 þegar hann hlaut 26,8 prósent atkvæða.

Allar kannanir benda til að Framsóknarflokkurinn fái sína verstu útkomu í kosningunum og mælist fylgi flokksins hæst 11,0 prósent í raðkönnun Capacent. Lægst mælist fylgið hjá Fréttablaðinu, 9,1 prósent. Í kosningunum 2003 hlaut flokkurinn 17,7 prósent atkvæða og hafði þá ekki gengið jafn illa í kosningum frá árinu 1978.

Þá benda allar kannanir til fylgis­aukningar Vinstri grænna. Minnst mælist fylgið hjá Blaðinu nú, 14,1 prósent, en hæst hjá Fréttablaðinu, 16,1 prósent. Flokkurinn hlaut 8,8 prósent atkvæða í síðustu kosn­ingum, sem er svipað og í kosningunum 1999.

Allar kannanir utan Blaðsins benda til að Frjálslyndir séu öruggir inni með að minnsta kosti þrjá þingmenn. Mest er fylgið hjá Capacent, 6,3 prósent. Í síðustu kosningum hlautu Frjálslyndir hins vegar 7,4 prósent atkvæða.

Þá benda allar kannanirnar til að Íslandshreyfingin komi ekki manni að. Mest mælist fylgið hjá Félagsvísindastofnun, 3,2 prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×