Innlent

Flokksmenn með og á móti hálendisvegum

Formaður Sjálfstæðisflokksins var endurkjörinn í embætti með 96 prósent atkvæða.
Formaður Sjálfstæðisflokksins var endurkjörinn í embætti með 96 prósent atkvæða. MYND/Hörður

Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir voru endurkjörin formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins á lokadegi landsfundar í gær. Hlaut Geir tæp 96 prósent greiddra atkvæða og Þorgerður rúmt 91 prósent.

Í kosningu til miðstjórnar hlaut Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins, bestu kosninguna en átta konur og þrír karlar voru kjörin í miðstjórn.

Mótsögn er í afstöðu sjálfstæðismanna til hálendisvega en um þá er fjallað í ályktunum um samgöngumál og um umhverfismál og auðlindanýtingu. Í fyrrnefndu ályktuninni segir: „Skoðaðir verði möguleikar á uppbyggingu hálendisvega, sem bæta aðgengi að ferðamannastöðum á hálendinu og stytta jafnframt vegalengdir milli landshluta.“

Í síðarnefndu ályktuninni segir hins vegar „Landsfundur telur að afar varlega verði að fara við uppbyggingu vega um hálendi landsins. Hálendið og víðerni þess eru auðlindir í sjálfu sér og ber ekki að leggja uppbyggða vegi þar nema að vandlega íhuguðu máli.“

Um Reykjavíkurflugvöll ályktar landsfundur að hann skuli áfram gegna lykilhlutverki sem miðstöð innanlandsflugs og að mikilvægt sé að hraða uppbyggingu samgöngumiðstöðvar við völlinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×