Innlent

Vinstri græn báðu Alcan um peninga

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, óskaði eftir að Alcan í Straumsvík styrkti flokkinn um þrjú hundruð þúsund krónur fyrir komandi alþingiskosningar.

Drífa Snædal, framkvæmdastýra VG, segir ekki óeðlilegt að flokkurinn óski eftir fjárstuðningi frá álfyrirtækinu. „Við sendum bréf á hundrað stærstu fyrirtækin í landinu og báðum um fjárstyrk. Annars er gengið mismunandi hart eftir þessu, við höfum til dæmis ekki ítrekað beiðnina við Alcan.“

Fulltrúar VG börðust síðastliðna helgi gegn stækkunaráformum Alcan í Hafnarfirði.

Drífa leggur áherslu á að þótt flokkurinn þiggi peninga frá fyrirtækjum hafi það engin áhrif á stefnu hans. „Við erum í þeirri aðstöðu að vera upp á náð og miskunn fyrirtækja komin, og úrtakið okkar var hundrað stærstu fyrirtækin á Íslandi. Alcan er eitt þeirra.“

Samkvæmt stefnu Alcan um allan heim styrkir fyrirtækið ekki stjórnmálaflokka. Ætlar fyrirtækið hvorki að verða við beiðni Vinstri grænna né annarra flokka. Auk VG hefur Frjálslyndi flokkurinn sótt um styrk til Alcan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×